Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Eitt sinn verður allt fyrst!

Já, það er ekki svo að maður upplifi ekki eitthvað nýtt, þó að upplifanirnar séu ekki alltaf jafn jákvæðar.  Eftir heimsókn systur minnar, sem býr í Hollandi, þá komumst við að því að í fyrsta skipti eftir að við fluttumst báðar erlendis fyrir þó nokkrum árum síðan, erum við ekki að auglýsa það að við séum frá Íslandi.  Við erum hreinlega ekki stoltaf af því lengur og það er eitthvað sem brestur innra með manni þegar maður segir skilið við föðurlandið og lítur ekki lengur á það sem sitt.  Ég hef alltaf haft það þannig, að þegar ég hef farið til Íslands, þá fellur lítið tár við lendingu flugvélarinnar á Keflavíkurflugvelli og það ólgar ákveðin tilfinning í brjóstinu á manni.  Nú er ég leið til klakans yfir jólin og ég veit ekki við hverju ég á að búast, hvort ég felli tár yfir því að finna fyrir rótum mínum eða hvort það verður vegna þess hvernig komið er fyrir þjóðinni.

Ég velti því fyrir mér hvernig staði geti á því að enginn geti hreyft við þeim mönnum sem komið hafa þjóðinni og almenningi í þetta ástand.  Davíð situr sem fastast, stjórnin situr sem fastast og allir benda á aðra en sjálfa sig og enginn virðist ábyrgur fyrir einu né neinu.  Hvað er hægt að gera til að fá þessa einstaklinga til að axla þá ábyrgð sem fylgir stöðuheitum þeirra og fá þá til að skilja að þessi stöðuheiti eru ekki eitthvað punt, heldur ábyrgðarstöður þar sem hæfir einstaklingar eiga að sitja, ekki bara einhverjir Geirar og Davíðar sem halda að þeir eigi landið.  Það væri svo sem kannski auðveldara, því þá væru þeir orðnir gjaldþrota með eigið fé, en ekki landans.

Það er kannski huggun harmi gegn að það kemur vonandi að þeim degi að þeir og fleiri endi á hjúkrunarheimilum eða dvalarheimilum eða þjónustuíbúðum og geti fengið að bragða á eigin sulli.  Nei Davíð minn, þú ert búinn að nota 3 bleyjur í dag og það er niðurskurður, svo það verður ekki hægt að skipta á þér aftur fyrr en í fyrramálið, en það eru bara 11 tímar þangað til.  Hugsaðu bara um eitthvað gott eins og góðærið 2007, þá líður tíminn aðeins hraðar.  Geir minn, þú ert búinn að fá 1 banana í dag.  Þú mátt fá annan eftir 14 daga.  Það er matarskömmtun vegna niðurskurðar, svo þú verður bara að láta þér nægja naglasúpuna í 20. skipti.  Það er búið að bæta dálitlu kryddi í hana í dag.

Mér finnst hræðilegt að hugsa til þess að vinir og vandamenn séu að berjast við að halda hausnum upp úr skuldaflóðinu og að fleiri og fleiri séu að hugsa um að flytja til útlanda.  Það eru nefnilega þeir sem eiga að bjarga þjóðfélaginu, sem flytja.  Það er fólkið sem getur aflað tekna og á börnin sem eiga eftir að taka við nær sokkinni þjóðarskútu.  

Það verðu því með trega sem ég kem til landsins til að halda gleðileg jól með fjölskyldu, börnum og vinum og ég veit að ég verð glöð þegar ég kem HEIM aftur til Danmerkur.


Bloggleysi, atvinnuleysi, húsnæðisleysi, peningaleysi og bara leysi yfirleitt.

Fyrr má nú rota en dauðrota.  Ég hef bara ekki skrifað neitt af viti í hartnær ár.  Þvílík og önnur eins vitleysa (-leysi Wink).  Fylgist með hörmungunum á Íslandi og upplifi þær í gegnum vini og vandamenn.  Hef horft á þróunina úr fjarlægð frá Danaveldi, hlustað á hrakfallaspár hér og hugsað með mér að einhvern tímann ætti blaðran eftir að springa, sem og hún gerði, en mig óraði ekki fyrir því að það yrði svona umfangsmikill skaði.

Ég er orðin þreytt á því að vinna og vinna og vinna meira til að borga reikninga.  Mig langar að fara að lifa líka.  Fara í bíó, á tónleika, prjóna, elda góðan mat, kaupa góða tónlist og bækur, fara í ferðalög og hreinlega leika mér.  Af hverju getur maður aldrei lært fyrirfram og gert ráðstafanir í tæka tíð.  Lagt fyrir til hörðu áranna, en ekki bara lifað eins og flestir Íslendingar í núinu peningalega séð, því það reddast alltaf allt (ekki satt?).

Ég hef reynt að temja mér hugsanahátt Dana, sem er mjög sniðugur.  Þeir kaupa jólagjafir allt árið um kring á útsölum, en ég hef bara upplifað það að ég á enga peninga eftir þegar útsölurnar byrja og þar af leiðandi missi ég af öllum tilboðunum.  Ekki sniðugt það.

Bankinn minn er leiðinlegur, það er ekki hægt að tala við þá sem vinna þar eins og fólk, þeir meðhöndla mann eins og glæpamann, sem ekkert er hægt að gera fyrir.  Skipti um banka fyrir helgi, það er alveg á hreinu.

Sem betur fer fæ ég vinnu, hvar sem er í heiminum, þó launin séu ekki alltaf þau bestu, þar sem ég er í starfsgrein þar sem köllun á að vera einhver dyggð.  Skammastín Florence Nightingale.  Þar af leiðandi hef ég alltaf laun, þó þau séu mishá.  Reyndar er ég fastráðin núna en ekki lausamanneskja, en það gerir það að verkum að ég hrapa all verulega í tekjum og finn það sárlega á buddunni minni.

Þjóðverjar hjálpa okkur á þessum síðustu og verstu með því að vera með lægri virðisaukaskatt á matvælum og vörum en Danir og af því við höfum tækifæri á því þá keyrum við 1x í viku til Þýskalands og kaupum inn það sem okkur vantar og þó bensínverðið hafi verið hátt, þá margborgar það sig.

Svo í öllu leysinu reynir maður að brosa út í bæði og hugsa jákvætt, en þetta er virkilega þraut fyrir allar Pollýönnur heimsins.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband