Tiltekt eða það að færa ruslið og draslið úr einu horninu yfir í annað horn.

Það er alveg merkilegt hvað mér gengur erfiðlega að koma rusli og drasli út úr húsi.  Ég tek til, oft og iðulega, en mér finnst alltaf jafn mikill haugur liggja eftir.  Tók til dæmis til á skrifstofunni í gærkvöldi.  Sorteraði og flokkaði, henti og reif.  Jú, ég sé muninn, það var t.d. stór svartur ruslapoki sem ég þarf að koma í haugana (held ekki að tunnan rúmi hann ásamt öðru rusli sem þangað fer).  Raðaði þar að auki í 2 kassa sem þurfa að fara niður í kjallara.  Núna er ekkert í gluggakistunni, eða ofan á hillunum, en borðið er enn einn haugur og á gólfinu er föndurdótið mitt ennþá.  Ég get ekki ákveðið mig hvort það á að fá að vera þarna eða flytjast niður í kjallara ásamt garni og efnisbútum. 

Ég las það í bók um Feng Shui að orka sem ekki getur flotið frítt um staðnar og hleðst upp þar sem hlutir eru fyrir.  Þrátt fyrir góðan ásetning tekst mér aldrei að koma öllu mínu rusli og drasli fyrir það sem það á heima.  Hvað ætli Feng Shui segi um það, hihihi.  

Ég er líka þannig innréttuð að það þarf allt að gerast helst í gær og það sem ekki gerðist í gær getur bara beðið þangað til ég nenni að taka á því aftur.  Skipulag vantar ekki en það er framkvæmdin sem er erfið.  

Fann líka við þessa tiltekt 3 myndir sem eiga að fara upp á vegg.  Ein fór upp strax í gærkvöldi, á ganginn hjá okkur, hinar tvær bíða.  Eiginmaðurinn ekki viss um að við ættum stálnagla sem þarf til að setja í veggina í stofunni. 

Þegar ég lít í kringum mig, sé ég hluti liggja hingað og þangað, þar sem þeir ekki eiga heima, en það er nú bara þannig að ég get ekki hlaupið um endalaust og tínt upp allt sem aðrir meðlimir fjölskyldunnar hafa látið liggja.  Þá gerði ég ekki annað, en ég gæti kannski hugsað betur um mitt eigið drasl.  Kannski ég láti bara slag standa og drífi það sem eftir er af.  Þá verð ég svo glöð innra með mér og ánægð með dagsverkið.


Eitt sinn verður allt fyrst!

Já, það er ekki svo að maður upplifi ekki eitthvað nýtt, þó að upplifanirnar séu ekki alltaf jafn jákvæðar.  Eftir heimsókn systur minnar, sem býr í Hollandi, þá komumst við að því að í fyrsta skipti eftir að við fluttumst báðar erlendis fyrir þó nokkrum árum síðan, erum við ekki að auglýsa það að við séum frá Íslandi.  Við erum hreinlega ekki stoltaf af því lengur og það er eitthvað sem brestur innra með manni þegar maður segir skilið við föðurlandið og lítur ekki lengur á það sem sitt.  Ég hef alltaf haft það þannig, að þegar ég hef farið til Íslands, þá fellur lítið tár við lendingu flugvélarinnar á Keflavíkurflugvelli og það ólgar ákveðin tilfinning í brjóstinu á manni.  Nú er ég leið til klakans yfir jólin og ég veit ekki við hverju ég á að búast, hvort ég felli tár yfir því að finna fyrir rótum mínum eða hvort það verður vegna þess hvernig komið er fyrir þjóðinni.

Ég velti því fyrir mér hvernig staði geti á því að enginn geti hreyft við þeim mönnum sem komið hafa þjóðinni og almenningi í þetta ástand.  Davíð situr sem fastast, stjórnin situr sem fastast og allir benda á aðra en sjálfa sig og enginn virðist ábyrgur fyrir einu né neinu.  Hvað er hægt að gera til að fá þessa einstaklinga til að axla þá ábyrgð sem fylgir stöðuheitum þeirra og fá þá til að skilja að þessi stöðuheiti eru ekki eitthvað punt, heldur ábyrgðarstöður þar sem hæfir einstaklingar eiga að sitja, ekki bara einhverjir Geirar og Davíðar sem halda að þeir eigi landið.  Það væri svo sem kannski auðveldara, því þá væru þeir orðnir gjaldþrota með eigið fé, en ekki landans.

Það er kannski huggun harmi gegn að það kemur vonandi að þeim degi að þeir og fleiri endi á hjúkrunarheimilum eða dvalarheimilum eða þjónustuíbúðum og geti fengið að bragða á eigin sulli.  Nei Davíð minn, þú ert búinn að nota 3 bleyjur í dag og það er niðurskurður, svo það verður ekki hægt að skipta á þér aftur fyrr en í fyrramálið, en það eru bara 11 tímar þangað til.  Hugsaðu bara um eitthvað gott eins og góðærið 2007, þá líður tíminn aðeins hraðar.  Geir minn, þú ert búinn að fá 1 banana í dag.  Þú mátt fá annan eftir 14 daga.  Það er matarskömmtun vegna niðurskurðar, svo þú verður bara að láta þér nægja naglasúpuna í 20. skipti.  Það er búið að bæta dálitlu kryddi í hana í dag.

Mér finnst hræðilegt að hugsa til þess að vinir og vandamenn séu að berjast við að halda hausnum upp úr skuldaflóðinu og að fleiri og fleiri séu að hugsa um að flytja til útlanda.  Það eru nefnilega þeir sem eiga að bjarga þjóðfélaginu, sem flytja.  Það er fólkið sem getur aflað tekna og á börnin sem eiga eftir að taka við nær sokkinni þjóðarskútu.  

Það verðu því með trega sem ég kem til landsins til að halda gleðileg jól með fjölskyldu, börnum og vinum og ég veit að ég verð glöð þegar ég kem HEIM aftur til Danmerkur.


Bloggleysi, atvinnuleysi, húsnæðisleysi, peningaleysi og bara leysi yfirleitt.

Fyrr má nú rota en dauðrota.  Ég hef bara ekki skrifað neitt af viti í hartnær ár.  Þvílík og önnur eins vitleysa (-leysi Wink).  Fylgist með hörmungunum á Íslandi og upplifi þær í gegnum vini og vandamenn.  Hef horft á þróunina úr fjarlægð frá Danaveldi, hlustað á hrakfallaspár hér og hugsað með mér að einhvern tímann ætti blaðran eftir að springa, sem og hún gerði, en mig óraði ekki fyrir því að það yrði svona umfangsmikill skaði.

Ég er orðin þreytt á því að vinna og vinna og vinna meira til að borga reikninga.  Mig langar að fara að lifa líka.  Fara í bíó, á tónleika, prjóna, elda góðan mat, kaupa góða tónlist og bækur, fara í ferðalög og hreinlega leika mér.  Af hverju getur maður aldrei lært fyrirfram og gert ráðstafanir í tæka tíð.  Lagt fyrir til hörðu áranna, en ekki bara lifað eins og flestir Íslendingar í núinu peningalega séð, því það reddast alltaf allt (ekki satt?).

Ég hef reynt að temja mér hugsanahátt Dana, sem er mjög sniðugur.  Þeir kaupa jólagjafir allt árið um kring á útsölum, en ég hef bara upplifað það að ég á enga peninga eftir þegar útsölurnar byrja og þar af leiðandi missi ég af öllum tilboðunum.  Ekki sniðugt það.

Bankinn minn er leiðinlegur, það er ekki hægt að tala við þá sem vinna þar eins og fólk, þeir meðhöndla mann eins og glæpamann, sem ekkert er hægt að gera fyrir.  Skipti um banka fyrir helgi, það er alveg á hreinu.

Sem betur fer fæ ég vinnu, hvar sem er í heiminum, þó launin séu ekki alltaf þau bestu, þar sem ég er í starfsgrein þar sem köllun á að vera einhver dyggð.  Skammastín Florence Nightingale.  Þar af leiðandi hef ég alltaf laun, þó þau séu mishá.  Reyndar er ég fastráðin núna en ekki lausamanneskja, en það gerir það að verkum að ég hrapa all verulega í tekjum og finn það sárlega á buddunni minni.

Þjóðverjar hjálpa okkur á þessum síðustu og verstu með því að vera með lægri virðisaukaskatt á matvælum og vörum en Danir og af því við höfum tækifæri á því þá keyrum við 1x í viku til Þýskalands og kaupum inn það sem okkur vantar og þó bensínverðið hafi verið hátt, þá margborgar það sig.

Svo í öllu leysinu reynir maður að brosa út í bæði og hugsa jákvætt, en þetta er virkilega þraut fyrir allar Pollýönnur heimsins.  


Jólahamur eða -harmur?

Ég er ekki farin að skreyta fyrir jólin.  Ég er í verkfalli.  Það eyðileggur fyrir mér jólastemninguna að sjá allar þessar jólaskreytingar allt að 2 mánuðum fyrir jól Angry.  Fyrir mig hefst undirbúningur jólanna rétt fyrir 1. sunnudag í aðventu. 

Aðventan á að vera tilhlökkunarefni, ekki streituvaldur, en það er erfitt fyrir marga að slaka á fyrir jólin.  Lífsgæðakapphlaupið í hámarki, auglýsingarnar velta yfir fólk: "Þig vantar......", "....enginn getur verið án....." o.s.frv.  Það er búinn til einhver skortur og tómarúm sem mörgum finnst þeir þurfa að fylla upp í með gífurlegu magni af gjöfum til fjölskyldu, vina og vandamanna.

Mín uppskrift að stresslausri aðventu og jólum er þessi:

Jólagjafir eru keyptar á tilboðum og útsölu allt árið um kring og lagt til hliðar þar til kemur að því að þurfi að fara að pakka inn.  Þar með sparar maður bæði peninga og tíma rétt fyrir jólin. 

Maður getur líka útbúið, föndrað, sín eigin jólakort allt árið um kring, 5 stk. í einu, og svo í lok nóvember byrjað að skrifa á þau persónulegar kveðjur, eða senda lítið bréf sem segir frá því helsta sem á dag fjölskyldunnar hefur drifið þetta árið, ein mynd eða tvær (allt eftir óskum) segir líka margt.  Þetta á kannski meira við þá sem ekki hafa hist lengi, eða búa í útlöndum, eins og ég, en það finnst öllum gaman að fá persónulegar kveðjur um jólin.

Smákökubakstur er ekki alvarlegt mál á mínu heimili, við erum ekkert mikið smákökufólk og ef mann langar allt í einu í smákökur, má alveg kaupa 1-2 góða pakka á þokkalegu verði til að eiga.  Ef maður hefur orku og tíma eru piparkökur alltaf jólalegar og ég hef tekið upp á þeim sið að baka Sörur, sem við njótum svo á aðventunni, ekki á sjálfum jólunum því þá hefur maður hreinlega ekki pláss fyrir þær.

Í vikunni fyrir 1. sunnudag í aðventu kaupi ég inn fyrir föndrið fyrir aðventukrans og/eða dagatalakerti.  Útbý þetta svo í sömu viku, svo að það sé tilbúið þegar sunnudagurinn skellur á.  Á laugardeginum er svo skreytt úti við og á sjálfan sunnudaginn er svo eitthvað athafst með börnunum, spilað á spil, farið í göngutúr/bíltúr og svo er eitthvað gott með kaffinu s.s. vöfflur, pönnukökur, eða eitthvað álíka.

Í vikunni fyrir 2. sunnudag í aðventu föndra ég eitthvað smálegt, geng frá jólakortunum og sendi. 

Reyni, ef ég er ekki að vinna (vaktavinna) að gera eitthvað með börnunum hvern sunnudag í aðventu.  Hvað gert er er þeirra val.

Allsherjarhreingerning er útilokuð.   Jólahreingerningin er eins og öll önnur hreingerning.  Ef gluggarnir eru mjög skítugir þvæ ég þá að utan og innan til að geta betur notið jólaskreytinganna úti fyrir. 

Vikunni fyrir jól förum við svo og veljum jólatré (sögum niður okkar hjá jólatrjáabónda). 

Þann 22. desember er jólatréð tekið inn og það látið standa og opna sig, klárað að skreyta húsið að innan hátt og lágt.  Þann 23. desember skreytum við jólatréð og sjóðum hangikjötið (sem borða á á jóladag).  Þann 24. desember er svo hægt að sofa aðeins fram á morgun eða þar til þarf að setja kalkúninn í ofninn. 

Við þurfum bara að hafa það í huga að jólin koma, hvort sem það er allt í óreiðu eða allt pússað og pent.  Það sem við þurfum að muna eftir er hvort annað og gleðin við það að vera saman og eiga þá að sem við gerum.  Það er kannski væmið og "klént" að segja að kærleikurinn er það sem jólin ganga út á, en þannig er það fyrir mig og þá vil ég bara vera væmin og "klén". Joyful

En það er ansi erfitt að eiga hin fullkomnu jól og að stressa sig ekki og oftar en ekki rennur skipulagið út í sandinn, en þá hefur maður að minnsta kosti gert tilraun til að eiga afslöppuð jól, maður getur jú bara gert sitt besta, ekki satt?

 KNÚZ fram að næstu færslu.


Danska jólahlaðborðið, mett fram að næstu jólum

Noh!  Nú er ég búin að upplifa ekta danskt jólahlaðborð á, Den Gamle Grænsekro, með þvílíkri stemningu að Íslendingar komast ekki með hælana þar sem Danirnir hafa tærnar.  Þó að fólk kæmi úr öllum áttum til að kýla vambir og svala mismiklum þorsta á humaldrykkjum og snafsi, þá var upplifunin sú að allir væru saman að skemmta sér.

Gamanið byrjaði kl. 19:00 stundvíslega með mismunandi síldarréttum, sem voru á hverju borði fyrir sig ásamt rúgbrauði (sem er þjóðarbrauð Dana), svo var veittur jólabjór og snafs.  Meðan forréttarins var neytt spilaði tveggja manna hljómsveitin Sjubiduo.  Þeir hristu doðann af fólki á undraverðan hátt og á innan við hálftíma söng allur salurinn og var meira eða minna uppistandandi og uppi á stólunum.  Allir tóku þátt og meira að segja okkur Íslendingunum (ég og mínum betri helmingi), sem sátum hljóð og létum lítið fyrir okkur fara í okkar horni var boðið með.

Kl. 20:30 komu aðalréttirnir, þvílíkar kræsingar.  Sjávarréttahlaðborð með öllu tilheyrandi og sem kræsnum Íslendingum, kom það okkur mikið á óvart.  Fyrir kjötréttafólkið var hjartardýr, naut, svín, kjötbollur og svínasulta (ekki súrsuð), þar sem skreytt var með heilum elduðum svínshaus, með meðlæti.  Það var borðað og borðað og borðað og svo borðað aðeins meira, eins og maður ætti von á því að maður ætti aldrei eftir að borða mat aftur á ævinni. Sick

Meðan á þessu áti stóð, tók hljómsveitin sig til og kitlaði söng og danstaugar danans og það skipti engum togum fólk rauk úr stólum og dansaði konga um allan staðinn.  Það endaði svo í hókí-póki, sem á dönsku heitir boogie-woogie.  Þegar við héldum að nú gætu þeir ekki fundið meira til að hóki-pókast yfir, þá biðja þeir fólk um að para sig, kona með manni.  Konan ætti að setjast á hækjur sér.  Allir voru með.  Svo kom fyrirskipunin, við rennum niður og svo upp, niður og svo upp, niður, upp, niður, upp og svo ...........  Það vakti mikla kátínu og fólk skellihló.  Fæstir þorðu nú að fylgja þessum skipunum eftir, en þó nokkrir létu sig hafa það.

Kl. 22:30 var fólk búið að borða nægju sína af aðalréttunum og þá var farið að bera inn eftirréttina, klassískt "ris a la mande", marsipanterta með rjóma og ávöxtum, alls kyns ostar, sultur, kex og ávaxtakarfa með ferskum gráfíkjum, bláberjum, jarðaberjum, melónum m.m.   Fólk tók kröftugt til matar síns, eins og það hefði ekki fengið neitt að borða um kvöldið og hljómsveitin hélt áfram að hvetja til dans og söngs. 

Það er ótrúlegt að sjá hvað fólk sem hefur borðað mikið getur hreyft sig mikið stuttu eftir matinn. 

Gamanið hélt svo áfram með söng og dansi og spjalli til kl. 01:50 þegar tilkynnt var um síðasta lag, var hljómsveitin í virkilegu STUÐI.  Rétt eftir byrjun lagsins, sló rafmagni hljómsveitarinnar út og ekki tókst að vekja tækin til lífsins þrátt fyrir hetjulega fyrstu hjálp hljómsveitarmeðlima.  Þar með var haldið í koju.

Það getur því enginn haldið því fram við mig að Danir kunni ekki að skemmta sér!  Það kunna þeir svo um munar.  Reyndar kom smá frétt í staðarblaði okkar um það hvernig maður ætti að lifa jólahlaðborðið af, því það er staðreynd að margir borða og drekka það mikið að hjartað hreinlega gefur sig.  Líkaminn orkar ekki alla þessa vinnu með þungar máltíðir og alkóhól í ofanálag.  Við tókum það til okkar og borðuðum samkvæmt ráðleggingunum og héldum okkur við fiskinn sem allir vita að er hollur Wink.  Aðrar reglur höfðum við líka í huga eins og að það sem aðrir ekki sjá að þú borðar teljast ekki til kaloría.  Súkkulaði er grænmeti því það er unnið úr kakóbaunum, ásamt fleiri kongunglega góðum reglum.

Það er alveg víst að jólahlaðborð prófa ég aftur, en hvort það verður á sama stað, veit ég ekki.  Það leiðir tíminn í ljós.

KNÚZ fram að næstu færslu.


Ísland vs. Danmörk hvað snertir geðheilsu unglinga.

Jæja, þá er ég dottin í bloggið eins og svo margir.  Ætli þetta sé ekki vanabindandi LoL?  Eftir 4 ára dvöl i dejlige Danmark, er ég loksins fær um að geta metið kosti og galla þess að búa hérna.  Það tekur dálítinn tíma að setja sig inn í allar reglur og læra af mistökum sínum.  Í gær var mér til dæmis mikið hugsað til Íslands og hvað það væri aftarlega á merinni með aðstöðu og aðstoð til unglinga með geðræn vandamál. 

Ástæðan fyrir þessari hugsun var sú að ég tók vakt á ungligageðdeildinni í Esbjerg.  Það er tiltölulega ný deild, 5 ára gömul, og útbúnaðurinn þar er til fyrirmyndar.  Hver hefur sitt herbergi með baðherbergi, þarna eru bæði sjúkraþjálfi og iðjuþjálfi með aðstöðu.  Á göngunum er meðal annars æfingahjól, borðtennisborð, rafmagnspíanó, og fótboltaspil og bækur.  Þess utan eru 2 minni setustofur með sjónvarpi, ef unglingurinn vill vera út af fyrir sig og ekki sitja á "torginu" (almenningurinn)  með hinum.  Ef svo illa vill til að það kemur inn unglingur sem þarf á einangrun að halda, vegna sinna veikinda, er lokað svæði til þess með herbergi með baði og lítilli setustofu fyrir framan.  Litirnir eru ekki þessi dæmigerðu sjúkrahússlitir og öll deildin er mjög heimilisleg.  Það er kokkur sem eldar fyrir þau alla daga vikunnar og á matseðlinum í gær voru nautalundir með öllu tilheyrandi í hádeginu og lasagna um kvöldið og kvöldkaffið voru pönnukökur með ís. 

Allir hafa fast vikuplan sem unnið er í sameiningu af unglingnum, lækni hans, hjúkrunarfræðingi, þroskaþjálfa, iðjuþjálfa og sjúkraþjálfa.  Þeir ganga í skóla að degi til 5 daga vikunnar frá kl. 10 til 14, en þá tekur við deildarprógram eins og gönguferðir, iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun og svo föst verk sem skift er á milli unglinganna, t.d. vökva blómin á deildinni, þurrka af borðum, leggja á borð og aðstoða við framreiðslu matarins.  Þau mega þó ekki standa ein í eldhúsinu vegna heilbrigðisreglugerða.  Þó er eldhúshópur sem bakar og eldar stöku sinnum.

Hver unglingur hefur sinn tengil á vakt sem sér um að hafa ofan af fyrir honum eða sinna honum, allt eftir hans þörfum.  Hér er unnið eftir því sem Danir kalla "Miljöterapi" sem byggist upp á því að styðja og styrkja færni unglingsins og það svínvirkar, ásamt því að þau fá lyf sem þau þurfa á að halda.

Ég var mjög ánægð með upplifunina þarna og hversu allt var skipulagt og hvað unglingunum leið vel á deildinni. 

Þess vegna var mér hugsað til Íslands og þeirra aðstæðna sem BUGLIÐ býr við, eilífan sparnað og niðurskurð og maður þarf nánast að vera töframaður til að geta galdrað fram viðunandi aðbúnað.  Ég dáist að þessum þrautseigu einstaklingum og fagfólki sem leggur metnað sinn í það að hugsa um þá sem minna mega sín í samfélaginu og gera það þrátt fyrir þessar aðstæður.

Það er nú líka þessi pólitíska stærðfræði sem ég hef aldrei skilið, held að það hljóti að vera einhver önnur stærðfræði en ég hef lært í mínu námi.  Að það að loka deildum og fækka rúmum á sjúkrahúsum spari?  Fólk hættir ekki að veikjast af því deildir á sjúkrahúsum eru lokaðar eða færri rúm.  Það leggst inn á aðrar deildir, orsaka álag og yfirvinnu á þeirri deild, eykur sjúkradaga starfsfólks (vegna álags) og hvar er sparnaðurinn í því.  Þetta er svona bókhalds-trikk, að það er sparað í einum dálki og ofeytt i öðrum og þá jafnast það út, eða hvað (hef aldrei verið sleip í bókhaldi)?

En þessi sparnaðarvitleysa er bæði til hér í Danmörku og á Íslandi og á hvorugum staðnum skil ég rökfærslurnar fyrir þessum sparnaði.  Sérstaklega ekki í heilbrigðisgeiranum þar sem þar vinnur fólk sem sér um annað fólk og meiri ábyrgð er varla hægt að hugsa sér.  Umönnun er ekki einhver hugsjón sem gerir það að verkum að fólk þarf ekki að þiggja laun fyrir hana.  Það ætti einmitt að hækka launin í umönnunarstéttum til að launþegar lognist ekki út af fyrir aldur fram, útbrenndir með alvarleg streitueinkenni.  Ég get orðið svo reið þegar ég sé hversu lítið metið starf með einstaklinga er.  Hversu mikils virði er manneskjan, ríkisborgarinn, fyrir ríkið?  Það hafa verið hugmyndir hér um að bjóða heilbrigðisráðherranum að vinna í viku og þiggja laun eftir því á elliheimili (umönnun án fagmenntunar).  Verður gaman að sjá hvort nokkuð verði af því.  Oftast er fullt af hugmyndum og ekkert úr athöfnum.

Jæja, þá er ég búin að blása aðeins og farin að róast.  Ætla að upplifa danskt jólahlaðborð með tilheyrandi í kvöld, í fyrsta skipti í þessi ár sem ég hef búið hérna, hlakka mikið til.

KNÚZ þar til næsta færsla kemur.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband